tisa: Nýtt upphaf

mánudagur, janúar 12, 2009

Nýtt upphaf

MySpace er dáið.

Ég nenni ekki að blogga þar lengur.
Aðallega af því að ég nenni ekki að logga mig þar inn lengur.

Svo ég hef ákveðið að færa mig aftur á gömlu góðu tisu síðuna mína.
Ég veit ekkert hverjir lesa bloggin mín og mér er eiginlega alveg sama enda er ég meira að þessu fyrir mig.
Veit samt ekki alveg afhverju.
Það skiptir ekki öllu.

Ég hef ekki bloggað í háa herrans tíð og mig er farið að klæja hressilega í bloggputtana.



Það er nýtt ár.

Fyrir mig hefur það í för með sér nýjan skóla og nýja vinnu.
Vinnan er ekki alveg komin á hreint svo ég ætla ekki að vera að tjá mig um hana.

En ég orðin FB-ingur.
Það var svolítið yfirþyrmandi að mæta í tíma eftir að hafa gert nákvæmlega ekki neitt í fjóra mánuði.
Án þess að vilja móðga yndislegu íslensku vini mína þá sakna ég þess sárt að liggja í leti í Ástralíu með bjór í hönd og myndarlegan karlmann mér við hlið. Mmmmmmm....

Ég er búin að mæta í nokkra tíma í FB og líst svona misvel á þetta.

Enskukennarinn minn er ógeðslega fyndinn af því að hann talar íslensku með enskum hreim og ensku með íslenskum hreim.
Hann eyddi megninu af tímanum í að dásama húsgögnin í kennslustofunni og var það honum mikið hjartans mál að við tækum eftir því hvað borðið voru geðveikt kúl og miklu betri en öll önnur borð í skólanum.
Það leið næstum yfir mig í tilraunum mínum til að bæla niður hlátur minn.

Íslenskukennarinn talar á ljóshraða og hleypur helst út um allt á meðan.

Stærðfræðikennarinn er með teninga á heilanum.
Sem er kannski ekkert nema góður hlutur þar sem ég er að fara að læra líkindafræði.

Tölvukennarinn er svo krúttleg að mig langar að ættleiða hana sem ömmu mína.

Fjölmiðlafræðikennarinn talaði mikið um að væri búin að vinna hérna síðan '91 sem væri lengri tími en við nemendurnir hefðum lifað (ég ákvað að minnast ekki á það að ég er fædd '89 því ég vildi ekki skemma ræðuna hans)
Hann virkaði frekar bitur yfir þessu öllu saman.

Íþróttakennarann hef ég ekki hitt af því að ég ætla að segja mig úr íþróttum.
Og afhverju?
Af því að ég get það!

Já ég get svosum ekki sagt mikið meira um skólann þar sem ég bara búin með tvo daga í honum.

Þessa dagana eyði ég megninu af mínum tíma í að horfa á Gossip Girl.
Ég byrjuð að örvænta smá vegna þess að ég er að verða búin með alla þættina.
Hvað geri ég þá?
Ég gæti mögulega einbeitt mér að náminu, sem er það sem ég ætla að reyna að gera.
Mig langar samt miklu frekar að horfa á Gossip Girl og ímynda mér að kærastinn hennar Serenu sé kærastinn minn.

Annars er ég bara pirruð, löt og bitur eins og vanalega en það er einmitt oftar en ekki innblástur minn þegar ég skrifa.
Ég vil samt koma því fram að ég er hamingjusamlega pirruð, löt og bitur og veit hreinlega ekki hver ég væri ef ég væri ekki pirruð, löt og bitur.


Góðar stundir.

tisa at 14:55

4 comments